Ferill 161. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 161 . mál.


Nd.

1015. Nefndarálit



um frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1991.

Frá 1. minni hl. fjárhags- og viðskiptanefndar.



     Afgreiðsla þessa frumvarps hefur dregist úr hömlu, fyrst og fremst vegna innbyrðis deilna stjórnarflokkanna um ýmis atriði þess. Nánast daglega hafa birst nýjar hugmyndir um lántöku frá einhverjum stjórnarflokkanna og er nú útlit fyrir að meiri hl. ætli við lokaafgreiðslu málsins að samþykkja 1.200 millj. kr. aukin útgjöld ríkissjóðs sem fjármagna á með innlendum lántökum og að auki heimildir til 735 millj. kr. erlendrar lántöku. Þá leggur meiri hl. einnig til auknar lántökuheimildir erlendis vegna virkjanaframkvæmda auk ýmissa annarra skuldbindinga sem stofna skal til og skila sér í auknum halla á A-hluta fjárlaga. Þessar stórauknu lántökur, sem boðaðar eru með þessum tillögum meiri hl., eru bein ávísun á hækkun vaxta og munu hafa mikil áhrif á fjármagnsmarkaðinn í heild. Vaxtahækkun ógnar ekki síst hag heimilanna sem eru orðin annar stærsti lántakandinn á innanlandsmarkaði og eru gjaldþrot einstaklinga og heimila orðin uggvænlega tíð.
     Fyrsti minni hl. er algjörlega ósamþykkur þeim áherslum sem fram koma í breytingartillögum meiri hl., sérstaklega að því er varðar auknar lántökuheimildir til Landsvirkjunar og vegna kaupa á jarðnæði fyrir nýtt álver. Ekkert endanlegt liggur fyrir um samninga við erlenda aðila um byggingu og rekstur álvers og allt eins líklegt að af þeim verði alls ekki. 1. minni hl. mundi að sjálfsögðu fagna því ef áform um byggingu álvers næðu ekki fram, enda hafa kvennalistakonur beitt sér eindregið gegn nýju 200 þús. tonna álveri sem hefði í för með sér mikla umhverfismengun, auk þess sem fjárfesting að baki hverju starfi yrði óhóflega mikil og fjárhagslegur ávinningur lítill, jafnvel þótt umhverfisþættir væru ekki reiknaðir inn í dæmið. Hins vegar fagnar 1. minni hl. því að meiri hl. skuli nú fást til þess að veita heimild til að semja um kaup á björgunarþyrlu fyrir Landhelgisgæslu Íslands en það er einmitt sú leið sem Kvennalistinn hefur viljað fara í þessu máli.
     Fyrsti minni hl. styður einnig afnám skerðingargreina vegna Bjargráðasjóðs, Kvikmyndasjóðs, Framkvæmdasjóðs aldraðra og Framkvæmdasjóðs fatlaðra, en lýsir furðu sinni yfir því að meiri hl. skuli ekki ætla að taka á fjárhagsvanda Ríkisútvarpsins vegna óhjákvæmilegra framkvæmda á vegum þess. Fyrsti minni hl. leggur því til að 25. gr. frumvarpsins verði felld niður svo að Ríkisútvarpið fái þær tekjur af aðflutningsgjöldum af hljóðvarps- og sjónvarpstækjum sem því ber lögum samkvæmt.
     Fyrsti minni hl. mun samkvæmt framansögðu taka afstöðu til einstakra greina frumvarpsins en sitja hjá við atkvæðagreiðslu um málið í heild.
    

Alþingi, 15. mars 1991.


    

Guðný Guðbjörnsdóttir.